Sunday, October 31, 2010

Mikilvægi umhirðu í skógrækt

Nýtt samningskerfi byggt á reynsla af Héraðsskóga verkefninu
Hugleiðingar: Hlynur Gauti Sigurðsson Janúar 2010



Inngangur

Verkefnið Héraðsskógar var hugsa til að búa til auðlid fyrir bændur og þar af leiðandi til hagsbóta fyrir Íslendinga. Með hvatvísi var lagt af stað með logandi kyndil í hönd og boðskapurinn breiddur út víða um land, ef svo má segja. Verðugu verkefni var ýtt af stað og lögðust allir á eitt, þó svo að strangt til tekið hafi hver unnið í sínu horni, eða öllu heldur sínum bæ. Verkefnið var unnið eins af mikilli kostgæfni, þegar upp kom vandamál var það leyst án mikillar fyrirhafar, rétt eins og góð verkefni vinnast, en ekki eins og oft í nútíma þjóðfélagi þar sem þarf stympil og undirskrift og ómældan tíma við hvert atriði. Það má segja að það sé einn stærsti kostur verkefnisins.

Nú er ávöxtur verkefnisins farinn að sjást greinilega, “framar björtustu vonum” myndu sumir segja, en þar sem verkefnið hafði svo að segja enga fyrirmynd heldur var að stórum hluta frumkvöðlastarf, var ekki að vænta annars en að eitthvað færi úrskeiðis. Hérðasskóga-verkefnið er nú um 20 ára gamalt, Það einskorðaðist fyrst einungis við hluta af Fljótsdalshéraði en heitir nú Hérað- og Austurlandsskógar þar sem umfang þess nær nú yfir allt Austurland. Á 20 árum hefur náðst mikil, góð og að margra mati ábyggileg reynsla í ræktun á gróðrastöðvum sem og í gróðursetningu. Til að mynda geta þeir reynslumestu í faginu sagt til um hvaða planta ætti að vera hvar og hve mikið af henni án mikillar umhugsunar, en þessi reynsla var ekki ókeypis. Ætla mætti að elstu gróðursetningar verkefnisins séu ekki jafn ágætar eins og þær sem nú eiga sér stað og er það að koma á daginn. Við eigum orðið mikið af þéttum, margbreytilegum skógum sem hafa í flestum tilfellum ekki fengið þá athygli sem þeir hefðu þurft. Hingað til hefur megin áherslan verið lögð á gróðursetningu, enda gáfu gróðursetningatölur merki um afköst og ágæti skógræktar fyrir ráðamenn, en að sama skapi var mjög erfitt að sýna fram á ágæti skógarumhirðu í tölulegu máli og var því vanrækt. Í grófum dráttum mætti segja að þrennslags skógar séu í gangi hjá Hérðasskógum um þessar mundir.

A) Frum-skógur, (fyrstu skógar verkefnisins) þar sem skógurinn er orðinn svo þéttur að enginn kemst um hann nema smáfuglinn fljúgandi.

B) Ung-skógur, (þeir skógar sem eru komnir í rúmlega mannhæð,) þar sem trén eru ekki orðin að auðlind (söluvara), en er þó orðin það stór að þau eru fyrir hvort öðru.

C) Fóstur-skógur, þar sem skógurinn sést ekki vegna smæðar sinnar (en hann mun stækka)

Þessi ritning fjallar um stöðuna í dag og tekur fyrir umhirðuþætti þessara þriggja skógarstiga, sem og þeirra sem eiga eftir að koma.


Frum-skógur

Elsti skógar Hérðasskóga eru nú rúmlega 20 ára gamlir og í misjöfnu ástandi. Þar sem þetta eru allra fyrstu skógar verkefnisins er ekki hægt að búast við því að þeir séu mjög góðir. Tegundaval, kvæmaval, plágur og íbætur eru meðal þeirra þátta sem setja svip sinn á þessa skóga. Mest áberandi er lerkið og mismunandi góð kvæmi af því. Það er sjaldgæft að sjá fullkomnlega beinvaxið tré, þó mörg komist nálægt því. Lang flest eru ólöguleg og vart hægt að hugsa til viðarframleiðslu, eins og æðsti draumurinn var/er. Á fyrstu árunum lék jarðyglan (Lat. Diarsia mendica) skógrætendur grátt þar sem hún, svo að segja, át upp heilu svæðin og drap stóran hluta gróðursettra plantna. Fyrstu viðbrögð fagmanna voru að endurgróðursetja í svæðin (ef það hefði verið beðið með endurgróðursetningu hefði jarvinnslan farið út um þúfur). Ekki var allt sem sýndist, margt af því lerki, sem hafði verið afskrifað, tók við sér með þeim afleiðingum að skógurinn varð mjög þéttur, fyrir utan að mjög mörg voru margstofna sem jók enn meira á þéttleikann. Í sumu tilfellum hefur auk þess verið bætt við öðrum tegundum, sem voru hugsaðar til að taka yfir skóginn þegar fram liðu stundir en án umhirðu eiga þessar íbætur lítinn möguleika til að taka yfir. Við gróðursetningu á bert land má ekki búast við úrvals skógi úr fyrstu plöntun í fyrstu atrennu, skógurinn þarf sinn tíma til að aðlagast og er þá eðlilegast að telja í tugum ára en ekki í stuttum skrefum, árum, eins og manninum ánetjast stundum að gera. Við þessar aðstæður hefði verið rétt að fara inn í skóginn á fyrsta áratugnum (á fóstur- og ungskóga tímabilinu) og snyrta skóginn; saga burt þá stofna sem þóttu miður góðir, klippa tvítoppa og grófar greinar og jafnvel huga að öðrum þáttum á borð við nætingarþörf og í sumum tilvikum gefa náttúrulegum tegundum pláss til að vaxa samhliða þeim gróðursettu. Í stuttu máli, hirða skóginn. Þetta kann að fara einhver tími í svona vinnu en hann einfaldar svo um munar fyrir næstu skrefum skógarinns. Þetta var kannski eins sjálfsagt þá eins og það þykir í dag, enda verið að tala um “frum-skóg” á fósturstigi. Reynslan sýnir okkur nú, að hefði þetta verið gert þá væru þessir skógar ekki eins óyfirstíganlegir eins og þeir eru í dag. Má vera að fjármagn hafi eitthvað haft með þetta að gera. Þar sem fjárveitingar miðuðust mest við gróðuretningatölur var erfitt að ætlast til að fá fjármagn í umhirðu.

“Óyfirstíganlegir” skógar

Nú er svo komið að þessir skógar þurfa umhirðu, ef einhverjum árangri á að ná með þeim, eða einfaldlega skilja þá eftir og sjá hvernig þeir þróist. Í samningum milli skógarbónda og Héraðsskóga stendur að Héraðsskógar skudbinda sig til að sjá um fyrstu grisjun í skóginum. Afar fátítt er að fyrsta grisjun skili arði og því þótti eðlilegt að skógarbóndi fengi hana greidda. Út af þessu ákvæði á verkefnið í vandræðum, skógur í þessu ástandi þykir mjög dýr í grisjun, auk þess sem mikil skerðing hefur verið á gæðum viðarinns og því bera að vanda vel til verka svo ekki eigi að fara verr en þegar er orðið. Þetta á bæði við um einsleita lerkiskóga og ekki síður við um blandskóga.

Ung-skógur

“Ungskógur” verður hér skilgreindur sem skógur á ákveðnu vaxtarskeiði/tímabili. Hér verður aðallega talað um lerkiskóga sem eru venjulega á aldursskeiðinu 12-18 ára. Elstu/stærstu mörkin miðast við yfirhæð skógarinns um 5 metrar og meðalhæð um 4 metrar og þéttleiki þannig að greinar milli trjáa eru augljóslega farnar að snertast.
Ágætt er að fara inn í ungskóg og minnka þéttleikann milli trjánna í skóginum, of nefnt bilun. Aðfarir fara auðvitað eftir því hvernig skógurinn er og hvernig skógarbóndi vill að hann verði en sé miðast við það að skógarbóndi vilji fá sem mest viðargæði út úr honum eru til jöfnur fyrir ákjósanlegum þéttleika (t.d. frá 800 tré/ha upp í 1500 tré/ha). Með þessu ávinnst ýmislegt. Gefið er meira svigrúm fyrir ákjósanlegri viðartré til að stækka og gildna, hægt er að seinka fyrstu grisjun um ca 10 ár (um 35 ára skóg), séu felld tré skilin eftir í skógarbotninum munu þau grotna niður og búa í haginn fyrir þau sem eftir standa, svo ekki sé minnst á bætt útlit skógarinns. Ávinningarnir eru fleiri fyrir skóginn en ekki verður farið nánar út í það að þessu sinni. Að lokinni bilun má fara yfir skóginn, snyrta, uppkvista, tvítoppaklippa og grófgreinaklippa eða það sem þurfa þykir.


Með bilun í ungskógi má seinka fyrstu grisjun og auka verðgildi viðarinns.






Fóstur-skógur

Lærst hefur ýmislegt á þessum 20 árum Héraðsskóga hvað varðar aðfarir við gróðursetningu, plöntur, kvæmi, næringarþörf plantna og viðbúnaði við plágum. Því má segja að gróðursetning nútímans sé komin lengra á veg heldur en var í upphafi verkefnisins. Þær plöntur, sem hafa verið gróðursettar að síðustu hjá Héraðs- og Austurlandsskógum, eru því efnilegri en þær sem skutu rótum á fyrri tíð, en að sama skapi hafa í sumum tilfellum ytri aðstæður versnað. Með auknu jafnræði opnaðist svæði skógræktar frá því að vera kjörlendi til skógræktar yfir í það að vera allt land undir 50 m.y.s.. Þetta leiddi til þess að nýskógrækt færðis á svæði sem vart hefðu talist ræktanleg á fyrstu dögum verkefnisins. Því er frumkvöðlastarfið í skógrækt enn í gangi sem síðar meir mun svo skila sér í reynslubankann. Það er þó alls ekki hægt að segja að við séum á byrjunarreit, þó sumar forsendur/aðstæður séu breyttar. Við höfum lært það að með minniháttar/ ódýrum aðgerðum á fyrstu tveim áratugunum í skógrækt var hægt ná miklum árangri í viðargæðu og sparnaði þegar fram líða stundir.





Framtíðin- skógarlandbúnaður



Eftir að hafa farið gróflega yfir farinn veg Héraðs- og Austurlandsskóga hefur ýmislegt komið í ljós varðandi mikilvægi umirðu. Áherslur eru að breytast til betri vegar um þessar mundir og meiri áherslu er verið að leggja í umhirðuþáttinn þessa dagana, en það er ekki nóg, við megum ekki láta þessa auðlind fara til spyllis. Þegar horft er til framtíðar þarf ýmislegt að breytast hvað varðar skipulag hjá Héraðs- og Austurlandsskógum og ekki síður aðlaga breyttar aðstæður að nýjum áherslum, þ.e.a.s. Hugarfarsbreyting.






Hugarfarsbreyting, skógrækt sem landbúnaður
Hvað hefur áunnist og hvað má betur fara? Skógarbændur, sem og landsmenn allir, hafa séð að skógrækt virkar á Íslandi. Sumum blöskrar það mjög en öðrum ekki jafn mikið. Þetta ber að hafa í huga þegar lagt er af stað í skógrækt. Það kann að vera að einhverjir séu allt að því fanatískir á skógrækt, þeir um það, en hitt eru svo þeir sem hafa ekki gert sér upp skoðun. Þessi reynsla (sem svo er álitamál hvort er reynsla eða einungis vísir), hefur sýnt okkur það að hér má rækta skóg. Áhugi á skógrækt er kominn og mun aukast. Því fara skógarbændur að sjá hag sinn í skógrækt og ekki síður umhirðu. Með réttri umhirðu má auka gæði skógarinns til muna. Ekki bara verðmæti, heldur líka bætt álit almennings á starfseminni. Skógrækt er orðið að landbúnaði.
Hér á eftir er sett upp grófgerð tillaga að bættara fyrirkomulagi í nýskógrækt, þar sem skógarbóndinn tekur meiri þátt í skógræktinni og ber meiri ábyrgð. Skógarbóndinn er hvattur til að hugsa “vel” um skóginn sinn.


Breytt samningafyrirkomulag

Þegar skógrækt hefur sannað sig á Íslandi skal færa skógræktarhugtakið úr “landbótum” í “landbúnað”.




Hér á eftir er sett upp dæmi um breytt fyrirkomulag.


Dæmi
-Nýr skógræktarsamingur
Gerður er skógaræktarsamningur við HASK (Héraðs- og Austurlandsskógar) á jörð. Lagt er til að notaðar verði ýmsar plöntur í alls konar land, ýmist með einni tegund eða tegundum blandað saman og síðast en ekki sýst, mælst er til að þéttleiki gróðursetningar sé eftir áætlun frá ráðunaut (venjulegast miðað við 3500 pl /ha).

Skógarbóndi fer, svo gott sem, eftir skógræktaráætlun
Skógarbóndinn vinnur verkið samviskusamlega eftir fyrirfram gefinni áætlun.

A- Áætlunin kann að virka
Upp kemur fínn skógur með fínasta þéttleika.
B- Mikið drepst
Skógurinn verður lengi að komast á legg, jafnvel þarf að endurgróðursetja, verði svo, er það meiri kostnaður fyrir HASK
C- Allt lifir, en á erfitt uppdráttar, fjölstofna.
Komi til þess þá, shit happens.

Skógarbóndi plantar þéttar
Ef skógarbóndinn gróðursetur þéttar en áætlað, viljandi, óviljandi eða hvað það er skal EKKI refsa neitt fyrir það… strax.
Það gæti átt eftir að koma niður á honum (eða erfingjum hans). Heldur fær hann geitt fyrir þær plöntur sem hann sett niður. Það gæti skeð að helmingur plantnanna dræpist eða eitthvað álíka, nú sömuleiðis gæti allt lifað. Fari svo að allt lifi munu plönturnar fara snemma í mikla samkeppni um ljósið og færu þá í framleiðslu eftirsóttusta afurð timburmarkaðarinns, kvistlítið timbur, sem væri hægt að fá hátt verð fyrir… seinna, ógurlega mikið seinna.





-Líður og bíður
Þegar fram líða stundir kemur mest af því fyrrgreinda í ljós.
A- Eftir 10 ár
Skógurinn gæti verið af ýmsum gerðum. Ef hann er þéttur, mætti hugsa sér að gera hann gisnari, en sé hann gisinn, mætti hugsa sér að planta inn í hann eða bara bíða. Margt er í stöðunni, Um er að ræða a.m.k. 5 ólíka þætti.
A.1- Ráðunautur
Líklega mun ráðunautur koma með einhverja skógfræðilega speki sem er allra allra best… hann er jú menntaður og svona (en hann á ekki skóginn)
A.2.- Meðvitaður skógareigandi
Hann gæti haft grun um hvað hann vildi, hefði jafnvel hlustað á ráðunautinn sinn. Gerir bara eins og honum er sagt. Hann jafnvel veit einfaldlega hvað hann er að gera, alveg einn og sjálfur. Hann á skóginn og hann má nýta til margra þátta.
A.3- Ómeðvitaður skógarbóndi
Hann er búinn að planta, “þarf ekki að gera meir”, finnst honum, fyrir utan að það er nóg annað að gera utan skógarinns, auk þess sem það er arfvænlegra að vinna bara í bankanum og þéna bönzzz. (örugglea um 50% skógarbænda HASK)
A.4- Verktakinn
Ef Skógareigandi vill gera eitthvað en getur það ekki sjálfur ræður hann verktaka, en hann vill fá sem mest fyrir að gera sem minnst, eðlilega (eðli peninga). Þetta gæti leitt til þess að skógurinn fái ekki þá meðhöndlun sem hann þyrfti og auk þess líklega fyrir stóran tékka.
A.5- Hvað vill skógurinn og landið sjálft
Allt snýst um peninga og aftur peninga og rétt eins og annar “kvikfénaður” þá fær skógurinn að gjalda fyrir það. Hvernig er gerð skógarinns, þéttleiki, veðurálag og allt það? Þ.e.a.s. það er að mörgu að huga
2.B Til hvers ER skógurinn hugsaður ?
Fyrstu vangaveltur skógarbónda eru oft einfaldlega þessar… lifa plöntur hér? Svo þegar árangur hefur náðst með gróðursetningunni, t.a.m. eftir 10 ár hefur margt gerst, bæði í skóginum og hans kolli, jafnvel kominn nýr skógarbóndi, já eða enginn. Má vera að nú skulu rækta beinstofna kvistlaus tré í sögunarmillur, eða biomassaskóg, villiskóg, eða beitarskóg eða útivistarskóg, eða sumarhúsaskóg, svona mætti halda lengi áfram. Hvað sem svo verður gert.

Tillaga
-Einfalt uppgjör, hegning eða hamp

Til eru margar kenningar, kenningar hvers tíma, kenningar aðstæðna og svo er það alltaf aurinn. Í ljósi allra þessara óvissuþátta, er þá ekki bara best að hver skógarbóndi fái bara greitt eina summu fyrir landstærð (ha) eftir ákveðinn tíma, miðað við hverja tegund.
T.a.m. gæti hreinn lekiskógur haft 40 ára uppeldistíma hjá HASK (dettur úr HASK umsjá) og ætti að miða greiðslu eftir þéttleika, þrepaskipt.

En auðvitað má ekki byrja of snemma. Hægt væri að miða við að byrja eftir 10 ár og sé það ekki klárt eftir 40 ár , þá fyrnist það. (allt sagt með HUGES fyrirvara)
-Útborgunartafla

Auðvitað er þetta allt háð mati ráðunauts HASK, hvort byrjað sé of snemma og allt það, en hér er hugmynd af þrepaskiptingu.

Útborgun fyrir 1500 tré/ha = 50.000 kr

Ríkjandi Tegund frá ári til árs
Lerki 12 20
Fura 15 25
Ösp 10 15
Greni 20 25
Birki 15 25
Annað 80 98
Útborgun fyrir 1200 tré/ha = +20.000 (samtals 70.000 kr)

Ríkjandi Tegund frá ári til árs
Lerki 12 25
Fura 15 30
Ösp 10 18
Greni 20 30
Birki 15 30
Annað 80 99
Útborgun fyrir 800 tré/ha = +30.000 (samtals 100.000 kr)

Ríkjandi Tegund frá ári til árs
Lerki 12 30
Fura 15 35
Ösp 10 20
Greni 20 40
Birki 15 40
Annað 80 100

Útborgun fyrir +1500 tré ha = 0 kr
Hafi skógarbóndi ekki unnið plikt sína á X árum, fær hann ekki greitt fyrir þann reit, miðað t.d. við gróðursetningarár, eða einhverja fyrirvara sem voru gefnir af ráðunaut.

Ath. Aðeins er gert ráð fyrir einni greiðslu á hektara og er hún hér 100.000 kr. (frekar lítil greiðsla kannski, sérstaklega ef miðað við fyrir kreppu)
Dæmi: Ef skógarbóndi vinnur segjum fyrst reitinn sinn niður í 1500 tré/ha fær hann 50.000 kall, en ef hann fer niður í 800tré/ha 10 árum síðar (innan fyrningartímans) fær hann viðbóar 50.000 kjell. Ekki slæmt það, eða er það?

Lokaorð


Staðan er sú að við erum og verðum alltaf að glíma við drauga fortíðar. En við búum til okkar eigin drauga, viljum við ráða við þá rétt eins og hinn nautsterki Grettir við Glám Svíagrílu eða viljum við miða við okkur og búa til okkur draug eftir vexti. Með einföldum reglum munu komandi kynslóðir ekki lenda í miklum rimmum við drauga. Sú er staðan í dag að draugar eru komnir á kreik og þá þarf að sigrast á og svo virðist sem þeir eflist með hverju árinu. Ef við gerum ekkert í þessum draugagangi gæti hér orðið reimt og þá er helst að grípa til eldsins, grípa kyndilinn sem notaður var til hvatningar í upphafi til að brenna allan ósómann. Það viljum við samt ekki. Því skal líta á þetta sem þrjú ólík verkefni.


1. Framtíðardraugar- gera samninga færir ábyrgðina á skógarbóndann. (ódýrt)
(framtíðin, eftir 15 ár verða allir skógar undir þessum hatti)

2. Nútímadraugar- “Bilið og þér munið græða” (lítilsháttar kostnaður)
(tekur 15 ár að hreinsa upp (þá taka samningar úr lið 1 gildi))

3. Forynjur fortíðar- Taka þá skóga sem eru orðnir “óyvfirstíganlegir” og grisja þá. (kostnaðarsamt)
(Ætti að takast á 3-5 árum að hreinsa)

Árið 2025 verða Draugar Héraðsskógar orðnir litir og viðráðanlegir, gangi þetta eftir.


Þetta litla plagg skrifaði ég bara af því að ég var andvaka næturnar 20., 26., og 29. janúar 2010. Ég var bara að velta þessu svo mikið fyrir að ég náða ekki að festa svefn, því ákvað ég að koma þessum hugleiðingum niður á blað í von um að ég næði svefni eftir það.

Sem sagt. Þetta eru bara hugleiðingar.
Nú er ég orðinn svolítið þreyttur þannig að ég hugsa að ég nái að festa svefn bráðum, annars hefði þessi lokaorðakafli orðið töluvert lengri og gáfulegri.
Góða nótt.




Es.
Nú er það undir þér komið að meta hvort eitthvað sé spunnið í þessar hugleiðingar eða ekki.

No comments: