Sunday, March 08, 2009

Elliárin


Ég hef haft ákveðna hugmynd í kollinum um þessar mundir og hef haft í þó nokkurn tíma. Hún er margþætt en mun ég reyna gera henni eins einhver skil í eins stuttu máli og ég treysti mér til, en hún er nú komin á það stig að hægt sé að deila henni.

Það er ekki spennandi að horfa fram á veginn og vita til þess að farið verði með mann eins og afa okkar og ömmur. Mér finnst það vanvirðing í meira lagi. Elliárin eiga að vera eins nálægt toppinum á tilverunni eins og mögulegt er. Sjálfur er ég nú að nálgast hálfa ellina eða næstum 30 ár og mér þætti magnað ef ég gæti orðið "gamall" um sextugt (hætt að vinna þ.e.a.s.). Ég hef þá helming lífs míns til að dunda mér að þessum draumi mínum (og vonandi ykkar líka)

- Keypt verður jörð á góðum stað. Þar verður reyst einkonar elliheimili, nema með allt öðrum áherslum en mér hefur sýnst núverandi heimili hafa. (sjá nánar lið 1)

- Stofnað verði trúfélag, t.d. "Ellitrúin". Þannig verðu hluti starfseminnar fjármagnaður. (sjá nánar lið 2)

- Stofnaður verði lífeyrissjóður. Það er ekki eins og peningarnir sem fara í lífeyrir í dag komi til okkar aftur. (sjá nánar lið 3)


1. Festa þarf kaup á jörð sem fyrst svo hægt verði að skipuleggja hana og svo planta í trjám þannig að þegar elliárin koma verðua þau orðin "stór". Skipulagning tekur mið af orðinu "sjálfbærni". Þetta elliheimili á að geta rekið sig sjálft, en samt með þjónustufólk og þannig. (Hér mun meiri tækni koma okkur að liði, þegar fram líða stundir.) Ég sé fyrir mér að þarna verði allt til alls. Dýr, golfvöllur og allt, allt sem við viljum. Þá væri ekki verra ef fleiri sæju fyrir sér eitthvað álíka og stofnuðu sín eigin elliheimili annarsstaðar á landinu (eða nálægt, skiptir ekki máli) og þá með öðrum áherslum. Ég sé fyrir mér að með fleiri svona "undarlegum" elliheimilum biðust meiri möguleikar til samstarfs eða hagræðingar, en það er önnur ella. Einnig væri gaman ef möguleiki væri á að færa út kvíarnar og fá heimsóknir að utan og fara að sama skapi erlendis. Þetta eru þó enn bara hugmyndir. (Það skiptir í sjálfu sér ekki máli hvar er best að hafa þessa jörð, en einhverra hluta vegna hef ég alltaf horft á Hérað, en það er kannski eðlilegt, fyrir þá sem vita hvaðan ég er.)

2. Trúflokkurinn Elli. Þar sem við erum hvort eð er að borga í einhverja kirkju (mörg okkar allavega) sem enginnsækir í er ekkert því til fyrirstöðu að nýta þennan aur frekar til elliáranna. Það er víst ekkert mál að stofna trúfélag, það fer víst bara eftir stofnfjölda, en ég hef sossum ekki kynnt mér það nánar.

3. Lífeyrissjóðurinn Elli. Það er alveg augljóst að við getum engum treyst í dag. Svona stór batterí eins og lífeyrissjóðirnir eru bara ömurlegt fyrirbæri, nema þeir gerðu skildu sína, þ.e. búa í haginn fyrir elliárin. Jeg vil sjá einhverskonar form á frjálsum lífeyri þar sem maður með meira peningavit en ég réði ríkjum, en þó einhver sem maður/menn maður þekkir og treystir. Fyrst allir þessir lífeyrisjóðir eru til, þá getur ekki verið mikið mál að stofna nýjan. eða hvað?


Þetta er bara létt ágrip af hugmyndum mínum til elliáranna. Hvað finnst fólki?

1 comment:

Stefán frá Deildartungu said...

jamm, segir ungi maðurinn, íbygginn á svip og setur í brýrnar